óskipt bú Flashcards

1
Q

Meginregla - undantekningar

A

Frá þeirri meginreglu erfðaréttar og skiptaréttar, að erfðaskipti skuli fara fram eftir arfleifanda svo fljótt eftir andlát hans sem við verður komið, eru veigamiklar undantekningar. Er þar um að ræða reglur erfðaréttarins, um heimild eftirlifandi maka arfleifanda til þess að sitja í óskiptu búi hans sjálfs og hins látna maka að tilteknum skilyrðum fullnægðum, og til að fara í reynd með búið sem sitt eigið innan vissra marka og einnig að vissum skilyrðum fullnægðum.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
2
Q

Lögbundin heimild

A

Í lögbundinni heimild til setu í óskiptu búi felst í raun réttri það, að eiginlegum arfskiptum eftir skammlífara maka er slegið á frest. Reglurnar um heimild til setu í óskiptu búi og um nánari réttaráhrif og takmörk þeirrar heimildar fjalla ákvæði II. kafla erfðalaganna, nánar tiltekið í 7. - 20. gr.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
3
Q

heimild eftirlifandi mak til að sitja áfram í óskiptu búi felur í sér?
Kostir og gallar

A

Heimild eftirlifandi maka til að sitja áfram í óskiptu búi felur í sér félagslegt hagræði fyrir hann, og eftir atvikum einnig börn sem makinn hefur á heimili sínu, og byggjast reglurnar um þetta því á sanngirnisrökum. Á síðari árum hefur löggjafinn þannig leitast við að bæta stöðu eftirlifandi maka og auka fjárhagslegt öryggi hans eftir fráfall hins skammlífara með því að rýmka heimild hans til setu í óskiptu búi. Óskiptu búi sem réttarúrræði er einkum ætlað að koma í veg fyrir, að meiri röskun verði á stöðu og högum hins langlífara við andlát hins skammlífara en þörf er á. Þótt ýmsir kostir séu við óskipt bú, verður að meta það hverju sinni, hvort hagkvæmt sé fyrir maka að velja þessa leið. Skuldaábyrgðin getur verið talsvert þungbær, í öðru lagi eru skorður reistar við forræði maka á eignum búsins og má vera að hann uni því miður vel að vera undir smásjá erfingja að því er fjárráðstafanir varðar. Allt fer það þó eftir atvikum. Eignarauki rennur yfirleitt til búsins, þótt maki eigi völ á úrræðum að vissu marki, er komi í veg fyrir það. Þá verður búið sem slíkt skattandlag, þ.á.m. við eignaskatta.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
4
Q

Skilyrði heimildar til setu í óskiptu búi:

A

Frumskilyrði heimildarinnar er, að hið langlífara sé maki hins látna í skilningi erfðaréttar og standi því til arfs, skylduarfs, eftir hann. Óvígð sambúð stofnar því ekki rétt í þessu sambandi. Einnig er skilyrði að eftirlifandi maki verður að standa til arfs eftir hinn skammlífara ásamt niðjum hans, maki má því ekki vera einkaerfingi. Þeir erfingjar, sem hér skipta máli til þess að reynt geti á réttarreglurnar um óskipt bú, eru niðjar hins látna, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í 7. og 8. gr. el. Skal þess einnig minnst að fóstur á skilyrtan erfðarétt skv. 21. gr. el. Þegar hér er talað um niðja hins látna, þurfa þeir alls ekki að vera jafnframt niðjar langlífara makans. Reglurnar um bréfarf breyta ekki þessari stöðu, að því leyti sem hinn látni kann að hafa arfleitt aðra en maka og niðja sína, því að bréferfingjar geta krafist þess að þess háttar arfshlutur komi til skipta þegar eftir lát arfleifanda, enda væri önnur niðurstaða bréferfingjum til mikils óhagræðis.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
5
Q

Sé einungis sameiginlegum niðjum skammlífara og langlífara maka til að dreifa

A

Sé einungis sameiginlegum niðjum skammlífara og langlífara maka til að dreifa, er staða eftirlifandi maka á þessu sviði mjög sterk. Réttur hans til að fara fram á leyfi til setu í óskiptu búi er þá tryggður með lögum, sbr. 7. gr. el. Fá gagnstæðar óskir niðjanna þar engu þokað um og eftirlifandi maki þarf ekki heldur að leita samþykkis þeirra. Hið eina sem getur hamlað þessu fyrirfram eru ákvæði í erfðagerningi frá hendi skammlífara maka, sem mæla fyrir um að skipti skuli þrátt fyrir allt fara fram að honum látnum. Alls ekki er gert að skilyrði í lögum, að skammlífari maki hafi í erfðagerningi kveðið á um rétt hins langlífara til setu í óskiptu búi. Þarf hér einnig að hafa hugfast að eftirlifandi maki þarf sem endranær að fullnægja tilteknum hæfisskilyrðum til að mega sitja í óskiptu búi, sbr. 9. gr. el.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
6
Q

Í 8. gr. el. er mælt fyrir um réttarstöðuna í þessu efni, þegar til er að dreifa niðjum hins skammlífara

A

Í 8. gr. el. er mælt fyrir um réttarstöðuna í þessu efni, þegar til er að dreifa niðjum hins skammlífara. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. er eftirlifandi maka heimilt að sitja í óskiptu búi með ófjárráða niðjum látins maka síns, sem ekki eru jafnframt niðjar hins langlífara ef sá eða þeir, sem fara með forsjá eða lögráð hinns ófjárráða niðja, hafa veitt samþykki sitt til þess, og hinn látni hefur ekki mælt svo fyrir í erfðaskrá, að skipti skuli fara fram. Fari langlífari makinn jafnframt með forsjá eða lögráð stjúpniðja sinna, á hann rétt á setu í óskiptu búi eins og mælt er fyrir um í 7. gr. el., sem felur þá jafnframt í sér, að gagnstætt ákvæði í erfðaskrá frá hendi hins skammlífara kemur einnig í veg fyrir búseturéttinn í þessum tilvikum. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. er langlífara maka þá einnig heimilt að óska leyfis til setu í óskiptu búi með fjárráða stjúpniðjum sínum, ef þeir veita samþykki sitt til þess. Í Hrd. Fyrirfram samþykki sonar hafði K fengið leyfi til setu í óskiptu búi M á grundvelli sameiginlegrar erfðaskrár sem þau höfðu gert og sonur M hafði þegar samþykkt. Þegar K hafði setið í búinu í 2 ár krafðist sonurinn að því yrði skipt, m.a. á grundvelli þess að samþykki hans hefði ekki legið fyrir. Fallist var á það að fyrirframgefið samþykki væri ekki nægilegt, hins vegar hefði hann átt að krefjast skiptanna þegar honum var fyrst tilkynnt um setu K í búinu og var kröfu hans því hafnað. Ljóst er, að réttarstaða eftirlifandi maka, sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 8. gr., er mun ótryggari en skv. ákvæðinu í 7. gr., en þess skal þó minnst að skv. 3. mgr. 8. gr. getur hinn látni, svo að gilt sé, hafa mælt fyrir um rétt eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi með stjúpniðjum sínum, hvort sem þeir eru fjárráða eða ófjárráða, án þess að afla sér samþykkis skv. 1. eða 2. mgr. 8. gr. Þetta á hins vegar ekki við um þá sérniðja hins látna, sem ekki eru jafnframt stjúpniðjar langlífara makans, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 8. gr.
Að sjálfsögðu verður það samþykki hlutaðeigandi niðja eða forsjármanna eða lögráðamanna þeirra að vera formlegt, skýrt og gefið beinum orðum. Almennt er rétt að gera þá formkröfu til samþykkisins, að það sé gert beinlínis í tilefni af andláti arfleifanda en áður en leyfis til búsetu er leitað hjá sýslumanni. Þó er þetta sennilega ekki fortakslaust skilyrði, hafi samþykkið að vísu verið gefið fyrirfram en með tryggilegum hætti, en þá færi gildi samþykkisins eftir mati á öllum aðstæðum. Þegar rætt er hér um að samþykkið þurfi að vera formlegt, er miðað við að það hafi verið gefið skriflega, sbr. 2. mgr. 10. gr. el. Hafa ber í huga að þótt einhver hlutaðeigandi niðja hafni því að gefa samþykki sitt, myndu skipti að vísu fara fram varðandi hans arfshluta, en eftirlifandi maki gæti eftir sem áður setið í óskiptu búi varðandi þann hluta búsins sem eftir stendur með öðrum niðjum hins skammlífara, sem hafa veitt sitt samþykki til búsetunnar. Miða verður við þá meginreglu, að hafi samþykki af þessu tagi verið gefið á annað borð, geti samþykkjandinn ekki afturkallað það einhliða, sjá þó 2. mgr. 14. gr. el.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
7
Q

Afsal langlífara maka á búsetuheimild

A

Heimild eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi er háð því að hann leiti formlega eftir leyfi til búsetu hjá hlutaðeigandi sýslumanni. Það er að öllu leyti háð vilja hans sjálfs hvort hann nýtir sér þann rétt í þessu efni, sem honum kann að vera lögmæltur. Sumir kjósa að láta skipti fara fram þegar eftir látinn maka sinn, þannig að allir erfingjar fái sitt svo fljótt sem kostur er. Þegar svo er komið, getur eftirlifandi maki lýst þeirri afstöðu sinni, að hann muni ekki notfæra sér rétt sinn til að fara fram á búsetuleyfi.

Hitt getur aftur á móti verið álitamál, hvort maki geti afsalað sér fyrirfram rétti til setu í óskiptu búi. Erfðalögin hafa ekki að geyma neitt ákvæði sem að þessu lýtur og eigi verður heldur fundin ábending um það í öðrum lögum. Norrænir fræðimenn í erfðarétti hafa þó almennt verið þeirrar skoðunar að þetta sé honum unnt. Í Hrd. Skipti/erfðaskrá reis ágreiningur vegna erfðaskrár M og K við opinber skipti dánarbús K. Kröfðust börn arfleifanda að viðurkennt yrði að þau fengju í sinn hlut við úthlutun úr dánarbúi K, allar eigur hennar og M og að úthlutun úr dánarbúinu færi ekki fram fyrr en að M látnum. Hæstiréttur vísaði til þess að fyrirmæli erfðaskrárinnar lytu ekki að skiptum úr dánarbúinu heldur kynni slíkt einungis að koma til skoðunar að látnum langlífari arfleifandanum. Þá ætti krafa þeirra, um að úthlutun færi ekki fram fyrr en að M látnu, sér ekki stoð í lögum.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
8
Q

Hæfi til setu í óskiptu búi

A

Í erfðalögum eru sett tiltekin hæfisskilyrði varðandi þann sem óskar leyfis til setu í óskiptu búi. Eru hæfisskilyrðin almenns eðlis á þann veg, að þau taka jafnt til allra búsetuheimilda án tillits til fjölskyldugerðar o.þ.h.
Í 2. mgr. 9. gr. el. segir, að sé það hjóna sem lengur lifir svipt lögræði, verði því ekki veitt leyfi til að sitja í óskiptu búi nema með samþykki yfirlögráðanda. Í 1. mgr. 9. gr. eru talin nokkur atriði sem valda vanhæfi eftirlifandi maka, stundum tímabundnu, til búsetu. Valda þau algeru vanhæfi að því leyti, að samþykki tiltekins aðila getur ekki leyst úr hömlunum. Búsetuleyfi til langlífara maka verður ekki veitt ef bú hans er til gjaldþrotaskipta, eignastaða hins langlífara er neikvæð eða eftirlifandi maka er ekki treystandi til að hafa forræði bús vegna vanhirðu um fjármál sín.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
9
Q

Leyfisveiting til búsetu

A

Um leyfisveitinguna, af hendi hlutaðeigandi sýslumanns, eru ýmis ákvæði í 10. gr. el. Þar segir í 1. mgr. að umsækjandi skuli sem fyrst eftir lát maka síns sækja um búsetuleyfi til sýslumanns í því umdæmi þar sem búskipti eftir hinn látna fara fram. Telji sýslumaður umsækjanda fullnægja lögboðnum skilyrðum til búsetu skal hann þá veita leyfið og láta umsækjanda í té formlegt leyfisbréf fyrir því, sbr. 4. mgr. 10. gr. Í 2. mgr. 10. gr. er tiltekið hverju skuli greina frá í umsókninni eða hvað skuli fylgja henni. Um form leyfisumsóknar er ekki getið í erfðalögum, en í reynd er krafist skriflegrar umsóknar.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
10
Q

óformleg búseta

A

Það kemur fyrir, að eftirlifandi maki sitji í reynd í sameiginlegu og óskiptu búi sínu og látins maka síns, án þess að hafa fengið formlegt leyfi til setu í óskiptu búi. Helgast þetta þá af því, að aðrir erfingjar hafa látið þetta óátalið af einhverjum ástæðum. Þessi ‚‚óformlega‘‘ búseta, þó lengi hafi staðið, ætti a.m.k. ekki sjálfkrafa að skapa sömu réttaráhrif og þau er fylgja formlegu búsetuleyfi, enda liggja ekki næg efnisleg rök til þess auk þess sem ábending í þá átt verður með engu móti lesin af orðalagi erfðalaganna sjálfra. Þar er eingöngu miðað við formlegt búsetuleyfi, en í lögunum eru gins vegar engin ákvæði um það, hvernig með skuli fara, ef búskipti fara ekki fram og langur tími líður. Í Hrd. Margrétarhús hafði K tekið sér setu í óskiptu búi sínu og látins eiginmanns síns og ráðstafað eingum þess án leyfis. Brast henni því heimild til slíkrar ráðstöfunar á eignum búsins án samþykkis allra samerfingja sinna. Hæstiréttur hefur þó í tveimur dómsúrlausnum talið réttlætanlegt að jafna ‚‚óformlegri‘‘ búsetu, er lengi hafði staðið, til ‚‚formlegrar‘‘ búsetu í skilningi erfðalaga. Í Hrd. Anna í Ámundakoti hafði M aldrei fengið leyfi til setu í óskiptu búi eftir lát K, voru þó skilyrði til þess. Með tilliti til þess að M hefði setið í búinu til fjölda ára og því hefði aldrei verið skipt, taldi Hæstiréttur að fara ætti með málið eins og m hefði setið í óskiptu búi og miða tímamark skipta á eignum K við lát hans. Í Hrd. Jónína og Benjamín hafði B setið í óskiptu búi sínu og J án leyfis þar til hann lést 10 árum síðar. Erfingi J fór í mál við erfingja B og krafðist þess að 2. mgr. 19. gr. el. yrði beitt, þrátt fyrir að B hafði ekki setið formlega í hinu óskipta búi. Varð það niðurstaða Hæstaréttar þar sem það þótti sanngjarnt. Þykir niðurstaða málsins þó gagnrýniverð.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
11
Q

Hvaða eignir falla til óskipts bús

A

Það er höfuðregla að til búsins falli einvörðungu þær eignir, sem teljast til hjúskapareignar beggja hjóna, sbr. 1. mgr. 11. gr. el., en að séreignir þeirra falli þar af leiðandi utan búsetuleyfis. Séreignum langlífara maka er þá haldið utan búsins en séreignum hins skammlífara verður almennt að skipta hið fyrsta. Frá þessu er gerð ein undantekning skv. 1. mgr. 11. gr. Segir þar að undir búið falli einnig vissar og nánar tilteknar séreignir, þ.e. þær sem samkvæmt ákvæðum laga eða kaupmála eiga að hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hjóna látnu. Er hér með óbeinum hætti verið að vísa til ákvæðis í 3. mgr. 74. gr. hjskl. Hér verður þó einnig að minnast á mikilvægt sérákvæði 1. mgr. 18. gr. el. sem kveður á um að hlutur erfingja í óskiptu búi sé séreign hans, ef erfingi er í hjúskap eða gengur í hjúskap. Er óheimilt að breyta þessu skipulagi með kaupmála. Eftir lát erfingjans telst eign þessi þó hjúskapareign hans, nema arfleifandi hafi kveðið öðruvísi á eða kaupmáli hjóna standi til annars. Í Hrd. Kaupmála ekki getið hafði M, í umsókn sinni um leyfi til setu í óskiptu búi hans og K, ekki greint frá kaupmála hans og K sem kvað á um að ýmsar eignir væru séreignir K. Var því tekin til greina krafa barna M um opinber skipti á búinu enda var skiptunum ekki með réttu lokið. Í síðara málslið 1. mgr. 11. gr. el. er að finna meginregluna um eignir sem koma til eftir að búseta í hinu óskipta búi hefst. Segir þar að sjálfsaflafé, þ.e. fé sem eftirlifandi maki vinnur sér inn með einhverjum hætti, og annað verðmæti sem sá eignast er situr í óskiptu búi, renni til búsins nema það eigi lögum samkvæmt að falla til séreignar hans. Samkvæmt þessu eru löglíkur fyrir því að eignir sem koma til eftir að búseta hefst falli til búsins. Undantekning er gerð frá þessari meginreglu í 2. mgr. 11. gr. þar sem segir að arfur eða gjöf, sem langlífara maka hlotnast, renni ekki inn í óskipt bú ef hann lýsir því fyrir sýslumanni innan tveggja mánaða frá því að hann fékk vitneskju um arf eða gjöf, að verðmæti þessi skuli ekki renna inn í óskipta búið, og verði þau þá séreign langlífara makans. Sá tímafrestur sem hér um ræðir er óundanþægur.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
12
Q

Höfuðreglan varðandi eignarráð

A

Höfuðreglan varðandi eignarráð er gefin í fyrra málslið 12. gr. el. þar sem segir að maki, sem situr í óskiptu búi, hafi í lifanda lífi eignarráð á fjármunum búsins. Er með eignarráðum í raun réttri átt við forræði yfir eignum búsins og forsjá þess en í forsjá þessari felst einkum þrennt, þ.e. varðveisluskylda, afnotaheimild og ráðstöfunarheimild. Með afnotaheimild er átt við að leyfishafinn fari með eignir óskipta búsins að öllu leyti sem sínar persónulegu eignir. Meginreglan er sú að maki, sem situr í óskiptu búi, hefur fulla heimild til að ráðstafa eignum búsins til annarra manna, einn síns liðs og með bindandi hætti, með hverjum þeim hætti sem tíðkanlegur er, hvort heldur sem er með sölu eða gjöfum eða með öðrum löggerningum. Þetta á þó aðeins við um löggerninga sem ætlast er til að komi til efnda í lifanda lífi löggerningsgjafans, þ.e. svokallaða lífsgerninga. Að þessu leyti er ráðstöfunarheimildin svipuð því og hann ætti eignir búsins sjálfur. Upphafstími þeirra sérstöku eignarráða og þar með ráðstöfunarheimildar miðast við útgáfu leyfisbréfs til búsetu. Í Hrd. Gunnlaugur og Guðlaug var Guðlaugu, sem sat í óskiptu búi, heimilt að leyfa dóttur sinni að vera í fasteign sinni þar sem hún hafði eignarráð og ráðstöfunarrétt yfir hinu óskipta búi. C, dóttir Gunnlaugs, taldi einnig að Guðlaug væri að rýra búið of mikið en ekki var fallist á það.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
13
Q

Undantekning frá þessari meginreglur

A

Frá þessari meginreglu gilda þó tilteknar undantekningar lögum samkvæmt, sem leiða til þrengingar og takmörkunar á hinni frjálsu ráðstöfunarheimild makans. Nokkurt aðhald fyrir maka ætti m.a. að felast í þeirri reglu 1. mgr. 15. gr., að samerfingi makans geti krafist skipta sér til handa ef maki rýri efni bús með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veiti tilefni til að óttast megi slíka rýrnun. Þeirri reglu 2. mgr. 15. gr., er mælir fyrir um heimild fyrir samerfingja að krefast þess fyrir dómi að gjafagerningi frá hendi makans verði hrundið ef gjöfin var óhæfilega há miðað við efni búsins og móttakandinn var grandvís þar um. Reglu 1. mgr. 17. gr. um endurgjaldskröfur samerfingja vegna hagsmunatjóns er þeir hafa beðið af óhæfilegri fjárstjórn maka. Athafnaheimild maka miðast að þessu leyti við þær ráðstafanir sem eðlilegar mega kallast, en takmarkast af vissri heimild samerfingja til gagnráðstafana.
Heimild langlífara maka, sem situr í óskiptu búi, til að ráðstafa eignum búsins með dánargerningum, þ.e. löggerningum sem eiga fyrst að koma til framkvæmda að honum sjálfum látnum, er mun takmarkaðri en heimild hans til lífsgerninga varðandi eigur búsins. Samkvæmt 20. gr. el. getur hann aðeins ráðið yfir sínum hluta úr búinu með erfðaskrá. Honum er þó heimilt að ráðstafa einstökum munum innan þessara eignarmarka, ef það gengur ekki í berhögg við fyrirmæli hins látna skv. 2. mgr. 36. gr. Í Hrd. Sameiginleg erfðaskrá og erfðasamningur höfðu M og K gert með sér sameiginlega og gagnkvæma erfðaskrá sem var einna helst búin til að tryggja K setu í óskiptu búi, færi svo að hún yrði langlífari maki. Eftir lát M vildi K breyta erfðaskránni, en skv. 2. mgr. 19. gr. myndu börn M erfa allar eignir K við andlát hennar og það vildi hún ekki. Var K óheimilt að gera nýja erfðaskrá, enda höfðu M og K skrifað undir samning sem kvað á um að ekki mætti breyta erfðaskránni nema með samþykki beggja. Í Hrd. Sameiginleg erfðaskrá en ekki erfðasamningur var uppi svipuð staða fyrir utan viðbótina við erfðaskrána, um að óheimilt væri að breyta henni nema með samþykki beggja, og því var heimilt að breyta henni.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
14
Q

Réttarstaða langlífara maka gagnvart skuldheimtumönnum

A

Maki sem situr í óskiptu búi ber að sjálfsögðu fulla ábyrgð á eigin skuldum. En hann ber einnig ábyrgð á skuldum hins látna sem um hans eigin skuldir væri að ræða, sbr. síðara málslið 12. gr. el.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
15
Q

Fyrirsvar búsins

A

Löngu er viðurkennt, í fræðum og framkvæmd, að langlífari maki, sem situr í óskiptu búi, hafi með höndum fyrirsvar búsins. Þetta felur m.a. í sér að út á við kemur leyfishafinn fram sem eigandi eigna og skuldari krafna, er búið varða. Ráðstafanir þær, sem honum eru heimilar, getur hann gert í eigin nafni, þannig að búið verði engu að síður skuldbundið. Leyfishafinn getur einnig höfðað dómsmál fyrir búið vegna eigna þess og honum verður réttilega stefnt til dóms til þess að svara þar fyrir búið, sé það varnaraðili í máli.

How well did you know this?
1
Not at all
2
3
4
5
Perfectly
16
Q

Réttarstaða samerfingja langlífara maka

A

Það er höfuðregla að við andlát arfleifanda tæmist öllum erfingjum hans arfur, enda þótt leyfi, sem eftirlifandi maki fær til setu í óskiptu búi, fresti erfðaskiptum á þeim eignum arfleifanda, sem renna inn í óskipta búið. Réttur samerfingja langlífara maka til móttöku erfðahluta þeirra úr búinu verður þá ekki fullvirkur fyrr en búsetunni lýkur eða þegar sérstakar aðstæður réttlæta það, svo sem þegar einhver samerfingjanna krefst skipta sér til handa þótt langlífari makinn sitji áfram í óskiptu búi. Þegar við andlát arfleifanda öðlast því erfingjar hlutdeild í eignum hans, enda þótt frestun verði á ákvörðun arfshluta þeirra og greiðslu þess arfshluta.
Meginreglan er sú að erfðahlutfallið, þ.e. hlutfallsleg upphæð þess erfðafjár, sem koma skal í hlut hvers erfingjanna, þ.e. eftirlifandi maka og samerfingja hans, ræðst þegar við andlát skammlífara maka. Birtist þessi regla m.a. vel í ákvæði 1. mgr. 19. gr. el. þar sem segir að við skipti milli maka, sem situr í óskiptu búi, og erfingja hins látna, skuli deila búshluta hins látna milli þeirra er standa til erfða eftir hann, samkvæmt almennum reglum.
Undantekning fá þessari meginreglu kemur hins vegar með vissum hætti fram í ákvæðum 2. mgr. 19. gr. sem fjallar um skipti er fara fram eftir lát langlífara maka, sem fram til þess hefur setið í óskiptu búi.
Hlutur samerfingja eftirlifandi maka, sem situr í óskiptu búi, verður séreign hans, ef hann er í hjúskap, þegar arfur tæmist, eða ef hann gengur í hjúskap síðar, sbr. 1. mgr. 18. gr. el., og þeirri reglu verður ekki haggað með kaupmála milli hjóna. Hafi erfingi andast áður en til skipta er gengið, verður þessi arfshlutur hans hins vegar að hjúskapareign hans, nema arfleifandi hafi kveðið öðruvísi á eða kaupmáli hjóna standi til annars. Þar segir að sama gildi, ef skipti fari fram í lifanda lífi erfingjans. Aðgreiningin kemur hins vegar fram ef hjónabandi erfingjans er slitið áður en skipti hafa farið fram, t.d. með skilnaði eða dauðsfalli maka hans, en við skipti á fjárfélagi þeirra hjóna verður þá farið með arfsinnistæðu erfingjans sem séreign hans.
Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. el. má erfingi ekki afhenda hlut sinn í óskiptu búi eða skuldfesta hann. Með afhendingu er einkum átt við fyrirframgefið framsal á arfi, með eða án endurgjalds, og gætir hér skyldleika við ákvæði 27. gr. um bann við ráðstöfun á arfi sem menn eiga í vændum. Með skuldfestingu er einkum átt við veðsetningu.
Eftir að arfshlutur hefur verið greiddur út við skipti, geta skuldheimtumenn samerfingja eftirlifandi maka að sjálfsögðu oftast leitað fullnustu í honum, þ.e. gert fjárnám í því fé meðan erfinginn hefur það enn undir höndum. En fram að skiptum er staða skuldheimtumannanna hins vegar veik. Þeir geta ekki krafist búskipta, sbr. 2. mgr. 16. gr. el., og þeir geta heldur ekki leitað fullnustu í arfshluta erfingja, sem enn stendur inn í óskiptu búi, sbr. 2. mgr. 18. gr.

17
Q

Búsetulok

A

Sú frestun á búskiptum, sem felst í leyfi til setu í óskiptu búi, er í eðli sínu bráðabirgðaráðstöfun. Þar kemur þó, að búsetunni lýkur, eigi síðar en við andlát leyfishafans, en einnig fyrr, sé leyfi afturkallað af einhverjum ástæðum. Um lok setu í óskiptu búi eru engin heildstæð ákvæði í erfðalögum, þ.e. ákvæði sem mæli fyrir um lok búsetunnar af öllum þeim ástæðum sem þó geta komið til greina, heldur er þar einungis kveðið á um sumar ástæðurnar.

18
Q

Almennar forsendur bresta

A

Ljóst er að forsendur sem upphaflega voru fyrir hendi, þegar leyfi til setu í óskiptu búi var veitt, geta brostið síðar með þeim afleiðingum að búsetan verður ómöguleg eða a.m.k. tilgangslaus. Þetta á t.d. bersýnilega við þegar allir samerfingjar leyfishafans eru fallnir frá eða þeir hafa allir afsalað sér arfi, en þá tekur maki allan arf. Hið sama gildir einnig þótt samerfinginn hafi aðeins verið einn, eigi þessar aðstæður við um hann, og ef búið verður eignalaus, því að jákvæð eign í búi var ein af forsendum leyfisveitingar á sínum tíma. Búsetuleyfið fellur þó væntanlega ekki niður af sjálfu sér, þegar svona stendur á, heldur ætti þá leyfishafinn sjálfur að óska formlegrar niðurfellingar þess. Geri hann það ekki ætti sýslumaður að gera það af sjálfsdáðum, eftir að honum hefur borist vitneskja um fyrrnefndar aðstæður.

19
Q

Leyfishafi andast

A

Búsetuleyfi fellur niður af sjálfu sér ef leyfishafi andast meðan hann situr enn í óskiptu búi. Þetta leiðir af eðli máls en er ekki beint getið í erfðalögunum sjálfum. Þetta kemur þó m.a. óbeinlínis fram af ákvæði 2. gr. 19. gr. el.

20
Q

Leyfishafi krefst heildarskipta

A

Maki getur hvenær sem er krafist heildarskipta á búinu, þ.e. skipta með öllum erfingjum hins skammlífara makans, sbr. 1. mgr. 13. gr. Formleg krafa um þess háttar skipti jafngildir beiðni um afturköllun búsetuleyfis.

21
Q

Leyfsihafi afsalar sér öllum arfi

A

: Eftir að hafa afsalað sér öllum arfi ætti leyfishafinn sjálfur að æskja niðurfellingar búsetuleyfis, en að öðrum kosti á sýslumaður að fella leyfið niður af sjálfsdáðum.

22
Q

Leyfishafi gengur í hjúskap

A

Í 2. mgr. 13. gr. el. segir að ef maki, sem situr í óskiptu búi, gangi í hjúskap að nýju, falli niður heimild hans til setu í óskiptu búi. Ákvæði þetta er alveg fortakslaust. Er að meginstefnu lagt bann við því í lögum, að maður gangi í hjúskap eftir lát fyrri maka nema áður hafi verið stofnað til búskipta eftir skammlífara makann, sbr. 12. gr. hjskl. Það að leyfishafinn stofnar til óvígðrar sambúðar meðan á leyfistíma stendur, hefur engin formleg eða sjálfkrafa áhrif á búsetuheimild hans.

23
Q

aðrar ástæður

A

Höfuðreglan er sú að breyttar forsendur um grundvallarskilyrði, t.d. vegna sviptingar lögræðis eða gjaldþrots, sem koma til eftir að stjórnvald veitti leyfi, þannig að leyfishafinn fullnægir ekki lengur skilyrðinu, leiði óhjákvæmilega til þess að leyfið eigi að falla niður.

24
Q

Skipti að hluta

A

Eftir að búseta er hafin kann hins vegar að koma til þess, að skipti fari fram til einstakra samerfingja eftirlifandi maka, án þess að þau leiði að öðru leiti til brottfalls búsetunnar. Hvort heldur sem er maki eða samerfingjar hans geta átt frumkvæði að skiptum af þessu tagi.

25
Q

Skipti að kröfu leyfishafa

A

: Maki, sem situr í óskiptu búi, getur hvenær sem er farið fram á það að tilteknum erfingja verði greiddur úr arfshluti þess, annað hvort að öllu leyti eða í takmarkaðra mæli.

26
Q

Skipti að kröfu samerfingja

A

Hver og einn samerfingja leyfishafans, þó einvörðungu úr hópi stjúpniðja hans, en ekki sameiginlegra niðja beggja hjónanna, getur að tilteknum skilyrðum fullnægðum krafist þess að fá arfshlut sinn greiddan að fullu eða að hluta til. Um þetta eru nánari ákvæði í 14. gr. el. Kröfu um slík skipti þarf ekki að rökstyðja, réttur fyrrgreindra aðila til að krefjast skipta er alveg skýlaus skv. 14. gr. el. Sameiginlegir niðjar beggja hjónanna eiga ekki skilyrðislausan rétt til að krefjast skipta sér til handa. Þeir geta á hinn bóginn borið fram kröfu um skipti til sín þegar alveg sérstaklega stendur á, svo sem nánar er lýst í 1. mgr. 15. gr. el. Samerfingi leyfishafa getur skv. 1. mgr. 15. gr. el. hvenær sem er krafist skipta sér til handa ef hann færir sönnur á að leyfishafinn vanræki framfærsluskyldu sína gagnvart sér eða rýri efni búsins með óhæfilegri fjárstjórn sinni eða veiti tilefni til að óttast megi slíka rýrnun. Þetta gildir um hvern erfingja um sig og þarf það, að orðið verður við kröfu eins erfingjans þannig að hann fær arfshluta sinn greiddan, ekki að verða til þess að hamla leyfishafa að sitja áfram í óskiptu búi með öðrum samerfingjum. Krafa um skipti skv. 1. mgr. 15. gr. verður að vera borin fram af eiginlegum erfingja. Maki erfingja getur ekki borið fram slíka kröfu. Í Hrd. Vanræksla tók Hæstiréttur til greina kröfu lögráðamanns allra samerfingja M og K um að skipta óskipta búinu sem M sat í sökum vanrækslu á framfærsluskyldu. Í Hrd. Fyrirfram samþykki sonar var fallist á kröfu þess efnis að bú yrði tekið til skipta vegna þess að makinn, sem sat í hinu óskipta búi, hafði rýrt búið og forsendur voru því breyttar. Í Hrd. Bræðurnir Ormsson ehf krafðist sonur K þess, að dánarbú hennar yrði tekið til opinberra skipta en faðir hans, M, sat í óskiptu búi eftir andlát hennar. Vísaði sonurinn til þess að tilefni væri til að óttast rýrnunar þar sem K sem hyggðist veðsetja allar eignir búsins til tryggingar greiðslu láns. Féllst Hæstiréttur á kröfu um opinber skipti syninum til handa.

27
Q

Heimild til riftunar gjafagerninga

A
  1. mgr. 15. gr. mælir fyrir um heimild erfingja til þess að krefjast fyrir dómi riftunar á gjafagerningi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Í Hrd. Sala á bát hafði K, sem sat í óskiptu búi eftir M, selt bát. Erfingjar M töldu að í þessum gerningi hefði falist gjöf skv. 15. gr. el. og kröfðust því riftunar. Taldi Hæstiréttur ekki sannað að um gjöf eða annan örlætisgerning hafi verið að ræða. Í Hrd. Jörðin Brakandi hafði K, sem sat í óskiptu búi M, afsalað syni sínum jarðir. Erfingjar M vildu fá þessu rift á grundvelli 15. gr., féllst Hæstiréttur á það og taldi skilyrði 15. gr. uppfyllt þar sem um gjafagerning væri að ræða. Í Hrd. 100 milljónir komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að ekki væri um óhæfilega gjöf að ræða í skilningi 15. gr. el. enda voru eignir búsins, er um ræddi, metnar á meira en 1200 milljónir.
28
Q

Endurgjaldskrafa

A

: Í 1. mgr. 17. gr. er mælt fyrir um heimild fyrir erfingja til að krefjast endurgjalds úr búinu hafi efni búsins rýrnað til muna vegna óhæfilegrar fjárstjórnar maka. Endurgjaldskrafa verður einungis borin uppi við skipti.